top of page

 

„Nemendum ber að hlíta fyrirmælum kennara og starfsfólks skóla í öllu því er skólann varðar, fara eftir skólareglum og fylgja almennum umgengnisvenjum í samskiptum við starfsfólk og skólasystkin.“ (Úr 41. gr. grsk.laga)

 

Um tilgang þess að setja skólareglur.

Skólareglur eru fyrst og fremst settar til þess að skapa frið og næði til náms í skólanum. Áhersla er lögð á jákvæð og góð samskipti - milli nemenda innbyrðis og milli nemenda og starfsfólks. Einnig miðast reglurnar við að veita þeim vernd sem minna mega sín. Þá eru og gerðar kröfur um góða umgengni í skóla og á skólalóð.

 

Á hverju hausti skulu skólareglurnar ræddar innan skólans. Einnig eru þær sendar heim til foreldra í bekkjarnámskránum og eru foreldrar hvattir til að kynna sér þær vel. Eftirfarandi skólareglur eru samdar með hliðsjón af grunnskólalögum, reglugerð um skólareglur í grunnskóla og aðalnámskrá grunnskóla.

 

 

Skólareglur Höfðaskóla

 

Í stuttu máli:

 Við sýnum starfsfólki, kennurum og nemendum virðingu, tillitssemi og kurteisi.  Við mætum stundvíslega og vel undirbúin í allar kennslustundir.
 Við vinnum vel í kennslustundum og virðum rétt annarra til þess sama.
 Við göngum snyrtilega um skólann og skólalóðina.

 Við berum öll ábyrgð á okkar eigin hegðun.

 

Lengri útgáfan:

 

Skóli er sameiginlegur vinnustaður nemenda og starfsfólks. Til þess að öllum líði sem best og að námsárangur verði góður þá gilda eftirfarandi reglur við Höfðaskóla:

 

Nám er vinna

Námið er vinna nemenda og til þess að sú vinna skili árangri ber sérhverjum nemanda að taka tillit til annarra og virða vinnufrið í kennslustundum. Nemendum ber að standa við þær námsáætlanir sem þeim hafa verið settar og mæta með öll gögn og áhöld sem til er ætlast.

 

Mætingar
Við mætum stundvíslega og vel undirbúin í allar kennslustundir.

 

Samskipti

Samskipti starfsfólks, nemenda og foreldra skulu grundvallast á gagnkvæmri virðingu, kurteisi og tillitssemi.
Nemendur eiga að hlíta fyrirmælum skólastjórnenda, kennara og annars starfsfólks skólans í öllu því er skólann varðar.

 

Umgengni

Við göngum snyrtilega um skólann og skólalóðina. Nemendur gæti þess að valda ekki skemmdum á eigum skólans, starfsfólks eða skólafélaga sinna.
Nemendum er óheimilt að koma með eldfæri, hnífa eða annað sem getur valdið skaða eða skemmdum.

 

Skólalóð

Nemendur skulu vera í og við skóla á skólatíma. Sérstakt leyfi þarf til að mega yfirgefa skólalóð á skólatíma.

 

Lífshættir

Nemendur skulu temja sér hollar og heilbrigðar lífsvenjur.
Notkun tóbaks, áfengis og annarra vímuefna er alltaf stranglega bönnuð í og við skóla og hvar sem nemendur eru á vegum skólans.

 

Skór og yfirhafnir

Við göngum frá yfirhöfnum og útiskóm á viðeigandi stað og skiljum ekki verðmæti eftir í vösum.

 

Í skólabíl og á skólaferðalögum

Ætlast er til að nemendur:
hafi hver sitt sæti í bílnum og sitji í því meðan bíllinn er á ferð hafi bílbelti spennt meðan bíllinn er á ferð
sýni kurteisi og tillitssemi
neyti hvorki matar né drykkjar í bílnum nema með leyfi bílstjóra gangi vel og snyrtilega um bílinn

 

Símar og snjalltæki.

Nemendur á unglingastigi mega hafa síma, spjaldtölvur og önnur snjalltæki meðferðis í skólann sem námstæki en notkun þeirra er háð leyfi kennara hverju sinni.
Á miðstigi mega nemendur hafa með sér símtæki en slökkt skal vera á þeim á skólatíma og geymd í skólatösku. Notkun snjalltækja er háð leyfi kennara.

Nemandi ber alfarið ábyrgð á öllum tækjum sem hann tekur með sér í skólann.

 

Viðurlög við brotum:

 

Mætingar. Ef umsjónarkennari telur fjarvistir óeðlilegar leitar hann skýringa hjá forráðamönnum. Ef óeðlilegar fjarvistir halda áfram boðar umsjónarkennari forráðamenn á fund til að ræða alvarleika málsins. Ef þetta dugar ekki til er málinu vísað til skólastjóra sem boðar forráðamenn á fund þar sem skólastjóri fer yfir hver næstu skref eru verði ekki breyting til batnaðar. Það þýðir m.a. að skólastjóri vísar málinu til nemendaverndarráðs sem eftir atvikum vísar málinu til barnaverndar.

 

Agabrot. Svipað vinnuferli viðhaft við agabrotum öðrum en ofbeldisbrotum (líkamlegum sem og andlegum) en þau meðhöndlast sérstaklega með tilliti til alvarleika brotsins. Ef vísa þarf nemanda tímabundið úr skóla er farið eftir ákvæðum stjórnsýslulaga.

 

Meðferð við ofbeldisbrotum. Geranda er vísað heim ef um gróft líkamlegt ofbeldi er að ræða. Fundur með forráðamönnum, nemanda, umsjónakennara og skólastjórendum morguninn eftir. Ef það þarf að vísa nemanda endurtekið heim fyrir ofbeldisbrot er málinu vísað til nemendaverndarráðs og eftir atvikum til barnaverndar.

 

Foreldrum/forráðamönnum skal ætíð gerð grein fyrir brotum barna sinna á skólareglum og beitingu viðurlaga. Ávallt skal hafa samstarf við foreldra/forráðamenn nemanda um úrlausn máls. 

bottom of page