Olweusaráætlun Höfðaskóla
Höfðaskóli hefur verið þátttakandi í Olweusaráætluninni gegn einelti frá haustinu 2004. Frumkvöðull verkefnisins er Dan Olweus sem rannsakað hefur einelti í yfir 30 ár og hannað aðferðir til að vinna gegn því. Verkefnið hefur hlotið fjölda viðurkenninga, þ.á.m. norrænu lýðheilsuverðlaunin og verið útnefnt fyrirmyndar forvarnarverkefni í Bandaríkjunum og er Dan Olweus talinn fremstur fræðimanna í heiminum á þessu sviði.
Hér á landi er verkefnið samstarf Menntamálaráðuneytisins, Sambands íslenskra sveitarfélaga, Kennarasambands Íslands og Heimilis og skóla. Markmið Olweusar áætlunarinnar gegn einelti er að draga úr vandamálum tengdum einelti hvort tveggja í og utan skólans, bæta félagstengslin í skólanum og koma í veg fyrir ný eineltisvandamál.
Áætlunin byggist á fremur fáum meginreglum sem miða að því að endurskipuleggja núverandi félagslegt umhverfi og skapa andrúmsloft sem einkennist af:
-
Hlýlegum og jákvæðum áhuga og alúð hinna fullorðnu
-
Ákveðnum römmum vegna óviðunandi hegðunnar
-
Stefnufastri beitingu neikvæðra afleiðinga (viðurlaga) sem hvorki eru líkamlegar né óvinveittar, brjóti nemandi gegn þeim reglum sem ákveðnar hafa verið
-
Við ákveðnar aðstæður eru hinir fullorðnu yfirboðarar og ráða í skólanum, bekknum og einstaklingsmálum, og raunar einnig heima
Frekari upplýsingar um Olweusarverkefnið má lesa á vefnum www.olweus.is
Vinnureglur Höfðaskóla gegn einelti
Hvað er einelti?
"Einelti er endurtekið líkamlegt og/eða andlegt ofbeldi þar sem einn eða fleiri níðast á eða ráðast aftur og aftur á einhvern einstakling."
Andlegt einelti felst t.d. í því að
-
skilja einhvern útundan eða setja einhvern út í "kuldann", s.s. neita um aðgang að samfélagi jafningja (t.d. ekki boðið í afmæli),
-
tala illa um einhvern, ógna eða hæða með orðum, niðrandi og/eða særandi athugasemdir um viðkomandi (t.d. bendingar, fliss og hvísl),
-
skemma eða eyðileggja reglubundið fyrir einhverjum (t.d. skólabækur, fatnaður, pennaveski, nesti),
-
þvinga einhvern til að gera eitthvað sem stríðir mjög gegn réttlætiskennd þess og sjálfsvirðingu (t.d. skemma eitthvað sem annar á).
Líkamlegt einelti felst t.d. í því að
-
hrinda, sparka í, slá, klóra eða klípa einhvern,
-
halda einhverjum föstum eða loka einhvern inni gegn vilja hans (t.d. í búningsherbergjum og á snyrtingum).
Svona vinnum við gegn einelti
Umsjónarkennarar leita markvisst eftir vísbendingum um einelti og/eða vanlíðan
-
Olweus eineltisáætlun
-
Könnun um líðan er lögð fyrir nemendur í október, janúar og apríl. Ef vísbendingar um vanlíðan koma fram þarf að bregðast við því strax.
-
Tengslakönnun er framkvæmd mánuði eftir könnun um líðan. Ef vísbendingar um vanlíðan koma fram þarf að bregðast við því og þá er rétt að endurtaka könnunina í lok vetrarannar.
-
Foreldrum/forráðamönnum eru kynntar niðurstöður eineltiskannana þegar þær liggja fyrir.
-
Viðtalstímar eru notaðir til að boða nemendur í viðtal án sérstaks tilefnis.
-
Nemendur eru hvattir til að láta vita um einelti.
Vinnuferli vegna eineltis
-
Gerendur/þolendur fá einstaklingsviðtöl
-
Foreldraviðtöl
-
Meira eftirlit í frímínútum.
-
Viðurlög (s.s. útilokun frá skólaskemmtunum eða öðru eftirsóknarverðu).
Fyrirbyggjandi aðgerðir
-
Eineltisáætlun skólans er kynnt nemendum í upphafi hvers skólaárs.
-
Markviss kennsla í lífsleikni.
-
Fræðsluefni nýtt á skilmerkilegan hátt.
-
Skýrar bekkjarreglur/bekkjarsáttmálar og skólareglur ítrekaðar/skýr mörk.
-
Gott foreldrasamstarf.
-
Fjölbreytt félagslíf sem gerir ráð fyrir þátttöku foreldra og annarra fjölskyldumeðlima, bæði í skóla og félagsmiðstöð.
-
Vinahópar innan bekkjar.
|