top of page
Uppeldi til ábyrgðar – uppbygging sjálfsaga

 

Uppeldi til ábyrgðar gengur út á að kenna sjálfsaga, sjálfsstjórn og að ýta undir sjálfstraust hjá hverjum og einum nemanda. Aðferðin byggir á kenningum Diane Gossen sem er kanadísk og hefur kennt þessa aðferð víða um heim. Margir skólar á Íslandi hafa tekið þessa stefnu inn í starf sitt.

Aðferðin gengur út á að ýta undir ábyrgðarkennd og sjálfsstjórn barna, þjálfa þau í að ræða um tilfinningar sínar og átta sig á þörfum sínum. Aðferðin styður starfsmenn skólans við að móta skýra stefnu varðanda agamál og samskipti. Þetta hefur áhrif á kennsluhætti, stjórnun, áherslur í lífsleiknikennslu og agamál.

 

Uppbygging sjálfsaga leggur áherslu á jákvæð samskipti fremur en reglur, á ábyrgð fremur en blinda hlýðni og á virðingu fremur en stjörnugjöf/umbun. Hæfileikinn til sjálfsstjórnar er þroskaður og efldur hjá nemendum og markmiðið er að hver og einn geti hugsað rökrétt áður en hann framkvæmir og brugðist rétt við aðstæðum. Jafnframt er unnið markvisst að uppbyggingu sjálfstrausts hjá hverjum og einum.

 

Uppbygging sjálfsaga hvetur hvern og einn til að taka ábyrgð á eigin orðum og gerðum.  Aðferðin nýtist mjög vel við bekkjarstjórnun þar sem allir fá að vaxa og njóta sín.

 

Uppeldi til ábyrgðar er aðferð í samskiptum og aðferð við að ná jafnvægi og innri styrk eftir að hafa beitt samferðamenn sína rangindum eða lent upp á kant við þá. Leitast er við  að ná samstöðu um lífsgildi til að hafa að leiðarljósi og fylgja þeim síðan eftir með fáum en skýrum reglum.

bottom of page