top of page

Erfið samskipti stúlkna - leið til lausna

 

Höfðaskóli ákvað, m.a. eftir niðurstöður Olweusarkönnunar, að taka þyrfti á erfiðum samskiptum stúlkna. Ákveðið var að hafa samband við Ingibjörgu Auðunsdóttur, sérfræðing við Skólaþróunarsvið Háskólans á Akureyri. En hún hefur unnið að málum í tengslum við erfið samskipti stúlkna. Farið var af stað haustið 2013 og allan veturinn var unnið markvisst undir leiðsögn Ingibjargar. Eftir góða reynslu og bættar niðurstöður úr Olweuskönnun, var ákveðið að halda verkefninu gangandi. Enda er það með þetta verkefni, eins og önnur, að það þarf stöðugt að vera vakandi, halda áfram, þróa, endurbæta og umfram allt að vinna áfram með það sem vel tekst til með. 

 

Dagný Rósa Úlfarsdóttir hefur haldið utan um starfið í Höfðaskóla, leitt það áfram og skilað þessum frábæra árangri. Í upphafi voru allar stúlkur í 3. - 7. bekk þátttakendur í verkefninu. Í vetur var ákveðið að breyta því fyrirkomulagi og eru það stúlkur í 5. - 10. bekk sem sitja fundi einu sinni í viku, í þremur hópum. Þá eru 5.-6. bekkur saman, 7.-8. bekkur og 9.-10. bekkur saman. Ólafur Bernódusson, námsráðgjafi, hefur svo sinnt drengjum í þessum bekkjum á sama hátt, þó svo verkefnin séu önnur, þá er ekki síður mikilvægt að vinna með drengina. 

 

Höfðaskóli er einstaklega vel settur að hafa svo frábært starfsfólk, sem Dagný Rósa og Ólafur eru, sem eru tilbúin að vinna að þessu verkefni, sem er ekki síður mikilvægt en íslenska og stærðfræði.

 

 

  • Samkvæmt rannsókn frá 2011 (Almar M. Halldórsson) þá er meira einelti meðal stúlkna en drengja. Og þá er sama hvort það eru skólar með Olweus eða ekki. 70 skólar tóku þátt í rannsókninni. Í Olweusarskólum (Þorlákur Helgason, 2014) þá er einelti að dragast saman, nema meðal stúlkna. Hafa ber í huga að  þrátt fyrir aukna vakningu varðandi einelti og mikilvægi þess að tekið sé á því, þá er hugtakið einelti er ekki skilgreint í íslenskum lögum. 

  • Samkvæmt Olweus (1993:9) er til tvenns konar einelti: óbeint einelti og beint einelti. 

  • Einelti stúlkna felur fremur í sér samskipta áreitni og félagsleg áreitni. Það er gjarnan ekki sýnilegt og því hefur það ekki verið tekið fyrir sem einelti, fremur sem eðlileg hegðun. En er það alls ekki. Áður var talið að einelti færi eins fram hjá drengjum og stúlkum, hins vegar hafa nýjar rannsóknir sýnt að það er alls ekki svo. Stelpur "slást" munnlega, með líkamsbeitingu og beita hver annarri gagnvart vinum og kunningjum, nota augnsvip, andlitssvip o.þ.h.  Vinkonuhópurinn er mjög mikilvægur, skiptir gjarnan öllu máli. Það skiptir mestu máli að vera samþykkt innan hópsins. Hins vegar ber að hafa í huga að þar hefur hver sitt hlutverk, þó virðist sem "græna kallinn" , samkvæmt Olweus, vanti innan hópsins. 

  • Það hefur verið þöggun í samfélaginu á einelti stúlkna/kvenna, rétt eins og áður var í sambandi við erfiða reynslu kvenna (andlegt og líkamlegt ofbeldi). 

  • Hverjar eru fyrimyndir unglingsstúlkna í dag? Gjarnan eru það frægar söngkonur, raunveruleikastjörnur o.þ.h. sem þær vilja líkjast, en finnst okkur, foreldrum/aðstandendum það æskilegar fyrirmyndir? Er ekki æskilegra að það séu t.d. þær sem ná árangri í íþróttum, baráttukonur í jafnréttismálum o.þ.h. ?

  • Stúlkur eiga að vera: góðar, hljóðar, tala lágt, grannar og sætar. Fullkomin stúlka á að eiga fullkomin félagsleg tengsl, vera alltaf saman, mega aldrei rífast eða slást... Það er ennþá við lýði að stelpur eiga að vera góðar... Stelpur eiga að vera eins og stelpur voru árið 1800... Leikið ykkur fallega, stelpur...

  • Hegðun stúlknanna er óaðfinnanleg þegar fullorðnir eru til staðar, grimmdin kemur í ljós þegar þær eru einar. Kennarar og foreldrar/aðstanendur eiga oft erfitt með að trúa því að stelpur geti gert þvílíkt og annað eins, sem þær og gera.

  • Stelpur sem verða fyrir einelti verða mjög fjarlægar, persónuleiki þeirra breytist, breyting í svipbrigðum, líkamsstaða breytist. Þær fjarlægjast kennara og vinahópinn. “Gefðu mér bros, ef þær geta ekki brosað, þá veistu að eitthvað er að.”

  • Bestu upplýsingarnar um einelti fáum við hjá börnunum sjálfum. Hlustum á þau, gefum þeim tíma, ræðum við þau.

 

 

 

 

 

 

Einelti er alls staðar!

Það þarf alltaf að hafa það í huga og vera vakandi, skoðum okkur sjálf.

Hvernig komum við fram við aðra? Hvert er okkar hlutverk innan vinnustaðarins? 

 

VERUM VAKANDI - SÝNUM UMBURÐARLYNDI - SÝNUM ÖLLUM VIRÐINGU

VERUM GÓÐAR FYRIRMYNDIR

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

bottom of page