Framsagnarkeppnin
Framsagnarkeppnin grunnskólanna í Húnavatnsþingi var haldin í Fellsborg á Skagaströnd þriðjudaginn 11.mars. Hún er hluti af Stóru upplestrarkeppninni sem haldin er um allt land. Keppnin er tileinkuð Grími Gíslasyni, bónda frá Saurbæ í Vatnsdal. Markmið keppninnar er að glæða tilfinningu og metnað húnvetnskra grunnskólanema fyrir íslensku máli og framsögn. Sá skóli sem hlýtur 1. sætið í keppninni fær afhentan farandskjöld sem Grímur lét útbúa og gaf í tilefni af níræðisafmæli sínu. Allir keppendur fá að gjöf tvær bækur og viðurkenningarskjöl fyrir þátttökuna, að auki fá þeir nemendur sem lenda í efstu þremur sætunum bækur, peningaverðlaun frá Íslandsbanka og sá sem hafnar í 1. sæti fær einnig gjafabréf frá Pottinum Restaurant á Blönduósi. Fulltrúar Höfðaskóla á hátíðinni voru þær Aníta Ósk Ragnarsdóttir, Guðný Eva Björnsdóttir og Laufey Lind Ingibergsdóttir og voru þær skóla sínum til sóma með frammistöðu sinni og framkomu. Þrír keppendur komu frá hverjum skóla á svæðinu, en þeir eru Blönduskóli, Höfðaskóli, Húnavallaskóli og Grunnskóli Húnaþings vestra. Dómarar voru að þessu sinni Baldur Sigurðsson, Magnús B. Jónsson og Sigrún Grímsdóttir. Keppendur lásu brot úr skáldverki eftir Þorgrím Þráinsson, ljóð eftir Erlu (Guðfinnu Þorsteinsdóttur) og ljóð að eigin vali. Úrslit urðu þessi 1. Laufey Lind Ingibergsdóttir, Höfðaskóla. 2. Lilja María Suska, Húnavallaskóla. 3. Sverrir Helgi Sigurðsson, Húnavallaskóla. Keppendur stóðu sig allir með prýði og áheyrendur gáfu gott hljóð. Myndir má sjá hér