Skólaferðalag til London
Frábæru unglingarnir okkar hafa unnið hörðum höndum, allt skólaárið, við að safna í ferðasjóð til að komast til London í skólaferðalag. Í síðustu viku lögðum við land undir fót og flugum til Bretlands.
Fyrsta daginn komum við okkur fyrir á hostelinu og kíktum svo á Big Ben, við ætluðum í raun að skoða miklu meira þann dag en úr því það kom helli demba ákváðum við að kíkja í eina búð í staðinn og það leiddist þeim nú ekki.
Á þriðjudeginum fórum við í Madam Tussauds vaxmyndasafnið þar sem allir fengu að taka selfies með fræga fólkinu. Í safninu fengum við líka að fara í stórskemmtilegt 4D bíó með Marvel hetjunum og sumir blotnuðu jafnvel örlítið þegar Hulk hnerraði yfir salinn.
Eftir þetta gengum við í gegnum Regent's Park í átt að dýragarðinum.
Eftir dýragarðinn gengum við yfir í Camden hverfið og fengum okkur ís á Chinchin. Eftir meira rölt var borðað á Planet Hollywood og komum ekki heim á hostel fyrr en seint um kvöld þar sem allir fóru beint að sofa eftir langan dag.
Miðvikudagurinn bauð upp á miklar andstæður. Fyrst fórum við í heimsókn í Hampton Court Palace, sem er höll Henrýs áttunda. Þar fengum við að sjá hallarsali og taka myndir af hópnum í skikkjum. Síðan fórum við í Thorpe Park þar sem allir fengu að öskra að vild í hinum ýmsu rússíbönum og fleiri tækjum. Þegar heim var komið fengu allir smá tíma til að skipta um föt því næsti staður var hið langþráða steikhús, sem bauð okkur upp á dýrindis mat og skemmtilega þjóna.
Á fimmtudeginum fórum við í náttúruminjasafnið og skoðuðum allt milli himins og jarðar, til dæmis risaeðlubein, demanta, upplitaða pandabirni og eldgos. Þangað kom Ali, sem tók upp heimildarmynd með nokkrum úr hópnum fyrr í vetur, og heilsaði upp á hópinn.
Eftir náttúruminjasafnið gengum við út í fyrsta góða veðrið síðan við komum og fórum í gegnum ýmsa garða á leiðinni í Westfield verslunarmiðstöðina. Um kvöldið fórum við svo á Believe it or not safnið og létum ljúga að okkur allskonar hlutum... sem gætu líka verið sannir! Þar fóru líka margir í gegnum laser-þrauta-herbergi og gott ef við eigum ekki framtíðar kvikmyndahetjur í okkar röðum. Við enduðum kvöldið á Trafalgar torgi og göngutúr um Camden
Síðasti dagurinn var föstudagur en þá vöknuðum við snemma og röltum út í London Eye þar gátum við séð yfir alla borgina. Síðan fórum við í Sea Life og skoðuðum hákarla og trúðfiska og allt þar á milli.
Eftir frábæran tíma í London var kominn tími til að halda heim.