top of page

Vettvangsferð í Vilko og SAH afurðir

Valhópur 9. og 10. bekkinga í heimilisfræði skellti sér í vettvangsferð á Blönduós fyrir stuttu. Fyrst var komið við í Vilko þar sem Kári Kárason framkvæmdastjóri tók á móti hópnum. Hann fór með hópinn í gegnum Vilko verksmiðjuna og sagði frá vöruþróun og markaðsmálum. Það sem kom nemendum á óvart, var hve fjölbreytt framleiðslan var og hve fáir vinna í Vilko, en einungis 7 starfsmenn starfa þar. Kári sagði stoltur frá því að hjá Vilko vinna starfsmenn með skerta starfsgetu sem eiga erfitt með að fá vinnu á almennum vinnumarkaði og standa þeir sig jafnvel eða betur en aðrir starfsmenn. Einnig var farið í Prima krydd, sem Vilko á og þar fengu nemendur fræðslu um hinar ýmsu kryddtegundir og uppruna þeirra. Meðal annars fengu nemendur að smakka dýrasta krydd í heimi, saffran en kílóverðið á því er yfir 1 milljón króna ! Kári leysti síðan hópinn út með Vilko kakósúpu og Vilko súkkulaði og lofuðum við að gera einhverjar tilraunir með þau hráefni.

Eftir Vilkoheimsókn var haldið í SAH Afurðir, þar sem Árný Þóra Árnadóttir tók á móti hópum. Hún sagði frá starfsemi fyrirtækisins og leiddi síðan hópinn í gegnum kjötvinnsluna, stórgripasláturhúsið, frystinn, og loks sláturlínuna, þar sem endað var í réttinni og skotbásnum. Nemendur urðu margs vísari í þessari ferð og enginn þeirra hafði áður komið inn í sláturhúsið. Það sem þótti einna merkilegast var aflífunaraðferðin, en lömbin eru aflífuð með rafmagni. Þá kom einnig á óvart hve stórt hlutfall starfsmann er erlent vinnuafl og frá mörgum löndum. Eins þótti afar merkilegt að sjá kjötfjallið í frystinum og garnaþvottavélina. Árný kvaddi síðan hópinn kaffistofu kjötvinnslunnar, þar sem allir fengu smáhressingu. Á myndasíðu skólans má sjá myndir frá heimsókninni, myndirnar tók Árný Þóra.

Í framhaldi af þessum heimsóknum var farið í tilraunastarfsemi í heimilisfræði og má sjá fréttir og myndir frá því hér á síðunni og á myndasíðu skólans.


 
Fréttasafn
Leit eftir atburðum

Höfðaskóli 

Bogabraut 2

545 Skagaströnd

hofdaskoli@hofdaskoli.is
Sími: 452-2800

 

 

Frístund: 867 9725

 


 

Hús skólans eru opin sem hér segir: 

Skóli: 7:30 - 17:00 

Íþróttahús: 7:40 - 20:00 

bottom of page