Viðurkenning Heimilis og skóla
Foreldraverðlaun Heimilis og skóla – landssamtaka foreldra voru afhent í 20. sinn í dag við hátíðlega athöfn í Safnahúsinu við Hverfisgötu. Anna Margrét Sigurðardóttir, formaður Heimilis og skóla, afhenti verðlaunin ásamt Gísla H. Guðlaugssyni, formanni dómnefndar. Mennta- og menningarmálaráðherra, Illugi Gunnarsson, forfallaðist því miður en aðstoðarmaður hans, Sigríður Hallgrímsdóttir, flutti ávarp fyrir hans hönd.
Einn kennari Höfðaskóla fékk tilnefningu til foreldraverðlaunanna, en það var Sonja Dröfn Helgadóttir fyrir verkefnið "Fágæti og furðuverk". Hér má sjá upplýsingar um verkefnið en það hefur tekist afskaplega vel og verður gaman að fylgjst með því áfram.
Hins vegar voru það Gleðileikarnir í Borgarnesi sem hlutu Foreldraverðlaun Heimilis og skóla 2015.
Gleðileikarnir eru þrautaleikur þar sem nemendum á elsta stigi Grunnskóla Borgarness er skipt niður í hópa sem þurfa að leysa krefjandi verkefni sem ekki eru hluti af þeirra daglega skólalífi. Sjálfstæði og samvinna eru einkunnarorð leikanna og miðast að því að efla samheldni og samstöðu í samfélaginu sem og að gefa þátttakendum tækifæri til þess að spreyta sig á skemmtilegum þrautum. Allir þátttakendur fara heim af leikunum með jákvæð og falleg skilaboð í farteskinu og nýja sýn á eigin styrk og getu. Verkefnið er vel heppnað og vekur athygli í samfélaginu, eflir samstarf heimilis og skóla og virkjar foreldra í starfi með nemendum og fær þá til þess að kynnast innbyrðis og öðrum nemendum skólans.
Hér að neðan er mynd af þeim sem voru tilnefndir, ásamt aðstandendum, og aðstoðarmanni Menntamálaráðherra. Auk myndar af Sonju með viðurkenninguna.