top of page

Í tilefni umræðna um Byrjendalæsi

Fréttaumfjöllun um kennsluaðferðina Byrjendalæsi hefur verið töluverð í kjölfar ummæla Menntamálaráðherra og fulltrúa Menntamálastofnunar og túlkunar þeirra á niðurstöðum samræmdra könnunarprófa.

Ég tel mig því knúna til að benda á nokkur atriði í tengslum við störf mín en mín kennsla byggir að nokkru á aðferðinni.

Ég hef kennt eftir aðferðinni frá 2006. Aðferðin hefur fært mér, sem og öðrum kennurum, verkfæri til að vinna með alla þætti læsis. Auk þess sem hún styður við grunnþætti aðalnámskrár. Byrjendalæsi hefur gefið mér tækifæri til að kenna lesskilning og orðaforða, þvert á námsgreinar. Læsi verður því ekki afmarkaður hluti náms, heldur eðlilegur þáttur í öllu skólastarfi. Sem það er og á að vera.

Samræmd könnunarpróf mæla aðeins takmarkaðan hluta þess sem nemendur læra og er ætlað að kunna. Þannig próf hafa þann tilgang að vera til leiðsagnar og eru niðurstöður þeirra ætlaðar til umbóta en ekki til að leggja mat á gæði skólastarfs. Því síður er hutverk þeirra að vera samanburður á einum skóla við aðra.

Meginmarkið Byrjendalæsis er að styðja og styrkja alla nemendur til þess að ná góðum tökum á læsi, sem fyrst. Lögð er áhersla á að mæta hverjum nemanda þar sem hann er staddur og að nemendur með ólíka færni geti unnið saman (Miðstöð skólaþróunar, 2015).

Byrjendalæsi er byggt á þróunarvinnu Rósu Eggertsdóttur sem taldi að efla þyrfti læsiskennslu og leitaði leiða sem styddu það meginmarkið sem kemur fram hér að framan. Allar þær aðferðir sem Byrjendalæsi nýtir eru rannsakaðar og hafa sannað að þær skili nemendum árangri. Hins vegar er Ísland fátækt af ritrýndum rannsóknum, sérstaklega í tengslum við skólastarf og er því nauðsynlegt að bæta þar úr, á faglegan, gagnrýnan hátt. Verið er að rannsaka árangur Byrjendalæsis sem stendur og von er á niðurstöðum á næstu mánuðum. Því tel ég að illa sé vegið að einni mest rannsökuðu aðferð (erlendis) sem kennarar hafa fengið að kynnast. Starfsfólk Miðstöðvar skólaþróunarsviðs Háskólans á Akureyri leggja sig fram, af fagmennsku og heiðarleika, að styðja við kennara í sínu starfi við að efla færni nemenda og horft er til þess að allir nemendur fái tækifæri til að læra miðað við eigin getu.

Þeir sem hafa áhuga á að kynna sér þessa aðferð bendi ég á Miðstöð skólaþróunarsviðs Háskólans á Akureyri, http://www.msha.is.

Þá er ég alltaf til viðtals.

Að því skrifuðu vona ég að umræður hverfi frá túlkun á niðurstöðum samræmdra könnunarprófa, því nám og kennsla byggist ekki á þeim prófum, heldur öðru fremur á ótal öðrum þáttum.

Með bestu kveðju, Sonja Dröfn Helgadóttir


Fréttasafn
Leit eftir atburðum
No tags yet.
bottom of page