top of page

Ferðasaga 9.bekkjar að Laugum

Laugaferð 9.bekkjar vikuna 26.-30.október 2015

Á Laugum í Sælingsdal í Dalasýslu eru reknar Ungmennabúðir og eru þær í eign Ungmennafélags Íslands. Heimasíða ungmennabúðanna er http://www.ungmennabudir.is

Ákveðið var sl. vor að við myndum dvelja þar eina skólaviku þetta skólaárið.

Við lögðum af stað á fallegum mánudagsmorgni eftir að hafa kvatt hina bekkina á unglingastiginu.

Sigurður Heiðarr var fararstjórinn okkar og á leiðinni fór hann yfir praktíst atriði, s.s. herbergjaskipan og hópaskipan.

Á leiðinni á Laugar stoppuðum við í Staðarskála. Við fengum þær upplýsingar að með okkur yrðu nemendur frá Flóaskóla, Hveragerði, Hólmavík og svo danskur/þýskur hópur ungmenna líka með.

Þegar við mættum á Lauga, komum við okkur fyrir og dagskrá hófst og hópavinnan fór af stað.

Dæmi um hópaverkefni voru alls konar hópeflisleikir eins og Traustganga þar sem við gengum um í skóginum með bundið fyrir augun, Stefnumót sem var kennsla í samskiptum og svo hraðstefnumót og Upptakarinn sem var kennsla í jákvæðni. Við fórum í Hólagöngu og þar var okkur skipt í 3 missterka hópa og gengum yfir hólana og yfir á bæinn Hól, á þeirri leið þurftum við að ganga upp á fjall. Það var misskemmtilegt. Svo gengum við upp á Tungustapa sem er kennileiti á staðnum, þar var okkur sögð saga. Við fórum í óvissuferð og þar voru okkur sagðar draugasögur og okkur hent niður í kjallara og fengum fleiri draugasögur þar. Skemmtilegt umhverfi og útisvæði var mikið notað í leik og meðal annars var í boði að baða sig í fossinum sem Auðunn og Sveinn gerðu.

Mjög góð íþróttaaðstaða er á Laugum og notuðum við hana mikið, fórum í leiki í salnum og fórum í sund. Á fimmtudagskvöldinu voru Laugaleikar sem eru keppni á milli liða. Græna liðið vann og setti nýtt stigamet í leikunum. Eftir leikana var svo sundlaugarpartý.

Anita, Guðný og Laufey fengu viðurkenningu fyrir snyrtilegasta herbergið og Sunna, Birgitta og Hallbjörg og Benni, Sveinn og Bjössi urðu þar í öðru sæti.

Eftir vel heppnaða dvöl lögðum við af stað heim á leið kl. 11 á föstudagsmorgni og vorum komin heim um kl. 14.

Við þökkum þeim sem hafa styrkt okkur vegna þessarar ferðar. Við erum reynslunni og fleiri vinum ríkari eftir þessa frábæru viku.

Ungmennabúðirnar eru á Facebook og þar má nálgast myndir úr leik og starfi okkar.

9.bekkur


Fréttasafn
Leit eftir atburðum
No tags yet.
bottom of page