top of page

Stóra framsagnarkeppnin

Framsagnarkeppni grunnskólanna í Húnavatnsþingi var haldin þriðjudaginn 8. mars að Húnavöllum. Markmið er að glæða tilfinningu og metnað grunnskólanema fyrir íslensku máli og framsögn en keppnin er haldin í öllum landshlutum undir heitinu Stóra Upplestrarkeppnin.

Á hátíðinni að Húnavöllum var tónlistarflutningur í boði Guðbjargar Önnu Pétursdóttur og Hugrúnar Lilju Pétursdóttur og Magdalena Margrét Einarsdóttir íslenskukennari í Húnavallaskóla flutti ávarp.

Forkeppni er haldin í hverjum skóla fyrir sig og mæta þrír bestu úr hverjum skóla í lokakeppnina en skólarnir eru Blönduskóli, Húnavallaskóli, Höfðaskóli og Grunnskóli Húnaþings vestra.

Dómarar að þessu sinni voru Baldur Sigurðsson, Benedikt Blöndal, Kolbrún Zophoníasdóttir og rithöfundarnir Gunnar Helgason og Arndís Þórarinsdóttir.

Keppendur lásu brot úr skáldverki eftir Bryndísi Björgvinsdóttur, ljóð eftir Guðmund Böðvarsson og ljóð að eigin vali.

Úrslit urðu þessi:

  1. Ólafur Halldórsson úr Höfðaskóla

  2. Hugrún Lilja úr Húnavallaskóla

  3. Víkingur Leon Þórðarson úr Blönduskóla

Raddir, samtök um vandaðan upplestur og framsögn veittu peningaverðlaun fyrir fyrstu þrjú sætin. Allir keppendurnir fengu tvenn bókaverðlaun og síðan fékk Höfðaskóli farandskjöld til varðveislu í eitt ár eða fram að næstu keppni.


Fréttasafn
Leit eftir atburðum
No tags yet.
bottom of page