Framsagnarkeppni
Litla framsagnarkeppni Höfðaskóla var haldin fimmtudaginn 23. feb. s.l. en þessi keppni er undanfari aðalkeppninnar sem á landsvísu kallast Stóra upplestrarkeppnin. Í Húnavatnssýslum hefur skapast sú hefð að nefna keppnina Stóra framsagnakeppnin en þá keppa sigurvegarar 7.bekkjar við jafnaldra sína á svæðinu í upplestri texta.
Í litlu keppninni okkar sem fram fór í Hólakirkju lásu nemendur í 5., 6. og 7. bekk texta upp úr skáldsögunni Flugan eftir Bryndísi Björgvinsdóttur og síðan ljóð að eigin vali eftir Guðmund Böðvarsson. Allir nemendur stóðu sig með stakri prýði og komu vel undirbúin til leiks. Sigurvegarar í ár voru: Sóley Sif Jónsdóttir, Erla Mjöll Daðadóttir og Sólveig Erla Baldvinsdóttir í 5.bekk ; Klara Ósk Hjartardóttir, Hlynur Hafliðason og Jóhanna Guðleif Albertsdóttir í 6.bekk og loks Jón Árni Baldvinsson og Almar Atli Ólafsson í 7.bekk. Sérstök verðlaun hlaut Dominik Gruenberger fyrir einstaklega frambærilegan lestur á sínum texta.
Þann 7. mars fór síðan Stóra framsagnarkeppnin fram á Hvammstanga og þangað fóru tveir nemendur 7.bekkjar, þau Jón Árni og Embla Sif sem kom inn í stað Almars Atla. Leikar fóru þannig að nemandi frá Húnavallaskóla sigraði, í öðru sæti var nemandi frá Blönduskóla og í þriðja sæti nemandi frá Grunnskólanum á Hvammstanga. Við í Höfðaskóla áttum einnig sigurvegara en Embla Sif fékk sérstök verðlaun, bókagjöf, fyrir einstaklega góðan raddlestur.
Við óskum öllum þessum börnum innilega til hamingju með góðan árangur í upplestri.